Hálendi Íslands, hjarta landsins, er eitt stærsta landsvæði í Evrópu, sunnan heimskautsbaugs, sem hefur aldrei verið numið af mönnum. Sérstaða svæðisins felst í einstakri náttúru, gróðurvinjum, jarðfræði og landmótun, einstöku samspili elds og íss, óviðjafnanlegum andstæðum í landslagi og víðernum sem eru talin meðal síðustu stóru víðerna Evrópu.

Sótt hefur verið inn á hálendið í auknum mæli á undanförnum áratugum og víðernin fara ört minnkandi. Vaxandi þrýstingur er á að raska hálendinu enn frekar með virkjunum, uppbyggðum vegum og raflínum. Tillögur eru um að leggja uppbyggðan veg um Kjöl og háspennulínu og uppbyggðan veg yfir Sprengisand. Þá undirbúa orkufyrirtækin að reisa að minnsta kosti fimmtán nýjar virkjanir eða uppistöðulón á hálendinu, þar af eru fjórar fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðum sem nú eru í verndarflokki í verndar- og orkunýtingaráætlun stjórnvalda (rammaáætlun). Þessar framkvæmdir myndu ganga gegn vilja almennings, en í könnun Capacent Gallup árið 2015 sögðust yfir 60% aðspurðra hlynnt því að miðhálendið verði gert að þjóðgarði.

Þá nefna yfir 80% erlendra ferðamanna náttúru landsins sem helstu ástæðuna fyrir Íslandsför. Það er því afar mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna, stærsta útflutningsatvinnuveg Íslendinga, að vernda miðhálendi Íslands. 

Með því að skrá þig tekur þú undir kröfu eftirfarandi samtaka um að hálendinu - hjarta landsins - verði hlíft við frekara raski
 

Hjartað

Útlínur hálendisins mynda hjarta í grófum dráttum, auk þess sem Guðmundur Páll Ólafsson hefur fjallað um hálendið sem hjarta landsins, t.d. á baráttufundi í Háskólabíói 28. nóvember 1998: „Á meðan er okkar sæng upp reidd: Að verja hálendið, sjálft hjarta landsins, með ráð og dáð, sem sverð þess og skjöldur. Og annaðhvort verjum við það núna eða aldrei. Í húfi er æran, þín og mín; heiður allra Íslendinga.“ Hjartað er gyllt til að tákna auðinn sem felst í óspilltu hálendi, bæði andlegan og efnislegan. Þá er hjartað myndað úr tveimur hlekkjum eða hringjum sem tákna tryggð við það sem okkur er kært.

Eftirfarandi félög standa saman að verkefninu Hálendið- hjarta landsins og munu standa vörð um hálendið í krafti félagsmanna sinna

                            Samút-samtök útivistarfélaga   

Með því að skrá þig tekur þú undir kröfu eftirfarandi samtaka um að hálendinu - hjarta landsins - verði hlíft við frekara raski